Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félagsmálaráðuneytisins nr. 001/2020

Föstudaginn 7. febrúar 2020 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 2. desember 2019, kærðu Houshang ehf., kt. 650111-0870 og […], sem er íranskur ríkisborgari, fd. [..], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. nóvember 2019, um synjun á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar til handa […] til að starfa áfram hjá félaginu auk þess sem óskað var eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað. Úrskurður þessi lýtur eingöngu að beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

I. Málavextir og málsástæður.

Málavextir verða hér einungis raktir að því marki sem þörf er á í tengslum við beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. nóvember 2019, um synjun á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar til handa […], sem er íranskur ríkisborgari, fd. […], til að starfa áfram hjá Houshang ehf.

Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu hana til ráðuneytisins með bréfi, dags. 2. desember 2019, auk þess sem kærendur óskuðu eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Í erindi kærenda eru færð fram þau rök fyrir frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga að réttaráhrif hinnar kærðu ákvörðunar hafi veruleg áhrif á hlutaðeigandi félag sem og á viðkomandi útlending og fjölskyldu hans, enda hafi hann ekki lengur gilt atvinnuleyfi hér á landi.

Erindi kærenda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. desember 2019. Í bréfinu óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir umsögn Vinnumálastofnunar í tengslum við hugsanlega frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi, dags. 18. desember 2019, barst ráðuneytinu umsögn Vinnumálastofnunar. Í umsögn stofnunarinnar, hvað varðar beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar, kemur fram að stofnunin telji ekki forsendur fyrir því að víkja frá meginreglu 3. mgr. 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. einnig 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Telur stofnunin að í málinu hafi ekki komið fram ástæður sem mæli sérstaklega með að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Í því sambandi vekur Vinnumálastofnun athygli á að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi viðkomandi útlendingur ekki fengið greidd laun frá því félagi sem hér um ræðir frá því í apríl 2019. Þá hafi verið lítill ef nokkur rekstur hjá félaginu á árinu 2019 samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Það sé því vandséð að mati Vinnumálastofnunar að fyrir liggi nauðsyn af hálfu þess félags sem um ræðir að viðkomandi útlendingi verði heimilt að starfa áfram hjá félaginu meðan málið er til meðferðar í félagamálaráðuneytinu.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. janúar 2019, var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum við umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2019. Var bréf ráðuneytisins eingöngu sent til viðkomandi útlendings þar sem hann kemur fram fyrir hönd þess félags sem hér um ræðir en samkvæmt gögnum málsins er hann framkvæmdastjóri félagsins. Afrit af bréfi ráðuneytisins til viðkomandi útlendings var hins vegar sent hlutaðeigandi félagi með tölvubréfi. Í bréfi ráðuneytisins óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir því að athugasemdir við þann hluta umsagnar Vinnumálastofnunar er varðar beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar stofnunarinnar myndu berast ráðuneytinu svo fljótt sem auðið væri og eigi síðar en 10. janúar 2020. Þá kom fram að ef slíkar athugasemdir hefðu ekki borist ráðuneytinu fyrir þann tíma myndi ráðuneytið ljúka afgreiðslu þess hluta málsins er varðar frestun réttaráhrifa á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Með tölvubréfi, dags. 13. janúar 2020, barst ráðuneytinu beiðni kærenda um frekari frest til að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum við þann hluta umsagnar Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2019, er varðar beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Var fresturinn veittur til 17. janúar 2020 með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 14. janúar sama ár.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2020, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá lögmanni, fyrir hönd viðkomandi útlendings, við þann hluta umsagnar Vinnumálastofnunar er varðar beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar stofnunarinnar. Í bréfinu kemur fram að hin kærða ákvörðun hafi víðtæk áhrif á líf viðkomandi útlendings, enda sé honum óheimilt að afla sér tekna auk þess sem hin kærða ákvörðun takmarki verulega möguleika hans til að fá veittan íslenskan ríkisborgararétt. Því séu fyrir hendi í máli þessu sérstakar aðstæður sem réttlæti frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þá kemur fram í bréfinu að það félag sem hér um ræðir hafi gert samkomulag við ríkisskattstjóra um greiðsluáætlun í tengslum við greiðslu vangoldinna skatta og opinberra gjalda sem mæli með því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytis ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laganna frestar stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 74/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, er varð að 34. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga, er tekið fram að miðað sé við að félagsmálaráðuneytinu „sé engu síður heimilt á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar þar sem ástæður mæla með því.“

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Í athugasemdum við 2. mgr. 29. gr. frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum kemur meðal annars fram að ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum máls. Þá kemur fram að reglan þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefur ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Jafnframt kemur fram að ákvæðið hafi mesta þýðingu varðandi ákvarðanir sem fela í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila, svo sem boð eða bann. Það hafi hins vegar sjaldnast nokkra þýðingu þegar um er að ræða neikvæðar stjórnvaldsákvarðanir þar sem synjanir hafi í för með sér óbreytt ástand fyrir aðila. Enn fremur kemur fram að það mæli með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls er einungis einn og sú ákvörðun sem um ræðir er íþyngjandi fyrir hann.

Að framangreindu virtu lítur ráðuneytið almennt svo á að við mat á því hvort fresta skuli réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar beri ávallt að leggja heildstætt mat á aðstæður og þá hagsmuni sem um er að ræða fyrir aðila máls hverju sinni. Í því sambandi ber að mati ráðuneytisins meðal annars að líta til efnis þeirra réttaráhrifa sem hin kærða ákvörðun hefur í för með sér fyrir aðila máls. Að mati ráðuneytisins er ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli þessu íþyngjandi fyrir viðkomandi útlending og það félag sem hér um ræðir þar sem hún felur það í sér að viðkomandi útlendingi er ekki lengur heimilt að starfa hjá félaginu líkt og honum hafði áður verið heimilt. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að ákvörðunin varði þannig hagsmuni beggja aðila en ætla má að ekki sé um andstæða hagsmuni að ræða.

Í ljósi alls framangreinds telur ráðuneytið að rétt sé að beita 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga í máli þessu og fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar, um synjun á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis, þar til efnisleg niðurstaða ráðuneytisins liggur fyrir.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 1. nóvember 2019, um synjun á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar til handa […] til að starfa hjá Houshang ehf. meðan málið er til efnislegrar meðferðar í félagsmálaráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum